Borgarráð Reykjavíkur felldi í dag tillögu Óskars Bergssonar, borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokksins, um að endurskoða ákvörðun um að hætta við Bitruvirkjun. Segir Óskar í bókun, að með þessu hafi borgarráð lagt blessun sína yfir ákvörðun sem tekin var í fljótfærni og muni kosta Orkuveitu Reykjavíkur um einn milljarð króna.
Þá segir Óskar, að þessi afgreiðsla borgarráðs sé synjun á því að unnið verði að atvinnubyggingu fyrir mörg hundruð manns á grundvelli hreinnar endurnýjanlegrar orku og sjálfbærar þróunar. Þá geri borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lítið úr orðum forsætisráðherra og formanns sama flokks, en hann hafi lýst efasemdum um ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar um að hætta fyrirvaralaust við Bitruvirkjun.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og F-lista létu bóka að ákvörðun stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um að hætta undirbúningsvinnu vegna Bitruvirkjunar og fresta öllum frekari framkvæmdum á svæðinu hafi verð tekin með viðhlítandi hætti og greiddu allir stjórnarmenn henni atkvæði sitt. Telji borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins að stjórnarmenn í Orkuveitunni hafi tekið umrædda ákvörðun í fljótfærni eða vanrækt skyldur sínar á einhvern hátt sé eðlilegt að hann beini skeytum sínum að fulltrúum minnihlutans í stjórn OR, sem séu jafnframt fulltrúar alls minnihlutans í borgarstjórn í stjórn fyrirtækisins og þar með Framsóknarflokksins.