Flugfélög gætu þurft að kaupa losunarkvóta

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli.

Evrópusambandið áætlar að fella flug inn í tilskipun um viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda. Tilskipun þessi er hluti af EES-samningnum.

Fyrirhugað er að flugið falli undir kvótakerfið árið  2011 eða 2012. Árið 2009 yrði viðmiðunarár vegna úthlutunar ókeypis losunarheimilda, sem verða í upphafi 87-100% af heildarlosun á svæðinu árin 2004-2006. Árið 2020 eða jafnvel fyrr verða allar losunarheimildir á uppboði.

Sambandið stefnir á að draga úr vexti flugstarfseminnar með því að beina flutningum inn á vistvænni samgönguleiðir og hvetja til tækninýjunga í flugi, flugleiðsögu og hagræðingar í rekstri til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Þetta kom fram á kynningarfundi á vegum Flugráðs í dag um áfangaskýrslu stýrihóps um losunarheimildir á koltvísýringi á flugi. Þar er meðal annars fjallað um kostnað flugrekstrar og farþega ef allt flug í Evrópu verður bundið í kvótakerfi. Á fundinum var fjallað um áhrif þessa á Ísland og flugrekstur hér á landi með hliðsjón af sérstöðu landsins hvað staðsetningu varðar og möguleika á undanþágu frá slíku kerfi.

Árið 2005 samsvaraði útblástur af CO2 í flugi íslenskra flugvéla í Evrópu 14 álverum með 180 þúsund tonna álframleiðslu. Útblásturinn hefur þó dregist umtalsvert saman síðan þá.

Bein og afleidd áhrif flugsamgangna á íslenskan þjóðarbúskap er um 5,5%. Það hlutfall er töluvert hærra en í flestum Evrópuríkjum og Bandaríkjunum. Ljóst þykir því að téð tilskipun Evrópusambandsins gæti haft hér meiri áhrif en í öðrum löndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert