Geta lifað aukaár fyrir 1,8 milljónir

Hvert ár sem áynnist með því að allar 12 ára stúlkur á landinu væru bólusettar gegn leghálskrabbameini kostar 1,8 milljónir. Með slíkri bólusetningu væri hægt að lengja heildarlífaldur hvers árgangs um tæp 17 ár.

„Að mínu mati er það forsvaranlegur kostnaður, og kostnaður ætti því ekki að koma í veg fyrir að stjórnvöld tækju þetta að sér,“ segir Jakob Jóhannsson, krabbameinslæknir og heilsuhagfræðingur.

Jakob, sem starfar sem læknir á Landspítalanum, rannsakaði í meistaraprófsritgerð sinni í heilsuhagfræði kostnaðinn við að bólusetja allar 12 ára stelpur á Íslandi gegn leghálskrabbameini.

Jakob segir að heildarkostnaður við að bólusetja hvern árgang yrði 47 milljónir króna, en 30 milljónir eftir að búið er að taka tillit til þess sem sparast með færri meðferðum og aðgerðum vegna leghálskrabbameins.

Eftir að búið er að taka tillit til þess kostnaðar sem sparast heilbrigðisyfirvöldum vegna færri leghálskrabbameinstilfella, kostar hvert ár sem ávinnst með bólusetningunni 1,8 milljónir, eins og áður sagði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert