Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að leikkona, sem sagt var upp störfum hjá Leikfélagi Reykjavíkur árið 2003 eigi ekki rétt á eftirlaunum frá félaginu.
Soffía Jakobsdóttir starfaði sem lausráðinn leikari hjá LR frá árinu 1967 , en á árinu 1977 var hún fastráðin hjá félaginu. Í byrjun árs 2002 var Soffía færð til í starfi, þegar henni var sagt upp starfi sem leikari, en ráðin tímabundið sem kynningarfulltrúi í hálft starf. Með bréfi árið 2003 var Soffíu tilkynnt að tímabundin ráðning hennar sem kynningarfulltrúi yrði ekki endurnýjuð.
Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að árið 1987 hafi LR og Félag íslenskra leikara gert með sér samkomulag sem veitti félagsmönnum þann rétt að fá greidd eftirlaun þegar þeir létu af störfum við ákveðinn aldur. Soffía hafði ekki náð þeim aldri þegar hún lét af störfum hjá LR en 20. nóvember 2001 tók stjórn félagsins þá ákvörðun með samþykkt að veita þessum hópi, er félli undir samkomulagið, lífeyrisréttindi sem skyldu nema því réttindahlutfalli sem starfsmenn hefðu áunnið sér 31. desember það ár. Þessi samþykkt var síðar felld úr gildi á stjórnarfundi 29. september 2003.
Deilan í málinu snérist um hvort Soffía ætti rétt á greiðslu eftirlauna samkvæmt samþykktinni en krafa hennar hljóðaði upp á tæpar 1,2 milljónir króna. Hæstiréttur taldi svo ekki vera og ekki yrði ráðið af gögnum málsins, að Félag íslenskra leikara ætti aðild að henni. Hafi því verið um einhliða yfirlýsingu af hálfu LR að ræða, sem ekki yrði talin skuldbindandi fyrir félagið á þann hátt að Soffía gæti byggt rétt sinn á henni til eftirlaunakröfu sem hún gerði í málinu.
Soffía var dæmd til að greiða LR 350 þúsund krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Einn dómari, Hjördís Hákonardóttir, skilaði sératkvæði og vildi taka kröfu Soffíu til greina.