Segja ráðherra brjóta lög með rangri lögheimilisskráningu

Ritstjórar DV segja í yfirlýsingu, að Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, brjóti lög með því að skrá falskt lögheimili á Kirkjuhvoli í Þykkvabæ. Þá hagnist hann á því með ýmsum hætti. Segja þeir að Árni hafi ekki útskýrt ástæður þessa.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

Árni Mathiesen fjármálaráðherra brýtur lög með því að skrá falskt lögheimili á Kirkjuhvoli í Þykkvabæ. Ráðherrann býr ekki á því lögheimili sem hann hefur gefið upp, þar búa pólskir verkamenn. Ráðherrann býr í Hafnarfirði en nýtur hlunninda úr ríkissjóði sem ætluð eru til að greiða kostnað af húsnæði, dvöl og uppihaldi í því kjördæmi sem hann er kosinn á þing fyrir.
 
Ranghermt er í yfirlýsingu Árna Mathiesen vegna þessa máls að hann njóti ekki styrkja vegna þessa. Hann segist aðeins fá greiðslur vegna ferðalaga og uppihalds. Þetta er rangt eins og má lesa í fyrstu málsgrein 2. greinar laga um þingfararkostnað. Í þeirri grein er fjallað um húsnæðis- og dvalarkostnað. Í þriðju grein laganna er fjallað um ferðakostnað en um það er ekki deilt.
 
Árni hefur sagt rangt að hann græði á fölsun sinni varðandi lögheimilið í Þykkvabæ. DV fellst ekki á þá málsvörn hans og túlkun. Árni greiðir lægra útsvar í Þykkvabæ en hann myndi gera ef skráning væri rétt og hann réttilega skráður í Hafnarfirði. Hvergi er því haldið fram í DV að hann brjóti lög með því að þiggja dreifbýlisstyrk en hann brýtur lög með rangri skráningu.
 
Ráðherrann hefur ekki útskýrt af hverju hann greip til þess að falsa skráningu lögheimilis í Þykkvabæ. Þess er krafist að hann skýri ástæður þess að hann fer á svig við lög í landinu með umræddum hætti og hagnast á því. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur hann ekki látið DV ná í sig.
 
DV hafnar því að biðja ráðherrann afsökunar en krefst þess að hann útskýri sitt mál. Ítarlega verður fjallað um mál ráðherrans í helgarblaði DV á morgun.
 
Reykjavík 5. júní 2008
 
Reynir Traustason, ritstjóri DV.
Jón Trausti Reynisson, ritstjóri DV


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert