Sviti og regnvatn lak af 16 langhlaupurum í Fossvogsdal, Elliðaárdal og Bryggjuhverfi í morgun. Það var heldur engin smávegalengd sem fólk var að spreyta sig á, heldur 100 kílómetrar, hvorki meira né minna.
Hlaupaleiðin var einn tíundi af heildarvegalengdinni. Hafist var handa klukkan sjö í morguni og svo einfaldlega hlaupið í hringi klukkutímunum saman. Þessi íþrótt er ekki fyrir veikgeðja fólk, enda er sett sérstakt 15 klukkustunda lágmark til að ljúka megi keppni.
Höskuldur Kristvinsson og Jón Sigurðsson voru í hinum alþjóðlega hópi hlaupara. Þeir fengu sér dálitla hressingu í Elliðaárdalnum, eftir 45 km skokk. Þá áttu þeir stuttan spotta eftir, 55 km! Reiknað er með að keppninni ljúki einhvern tíma seint í kvöld.