Matvælafrumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem heimilar innflutning á hráu kjöti verður unnið áfram í landbúnaðarnefnd Alþingis í sumar. Veruleg andstaða kom fram við frumvarpið á síðustu vikum þingsins í vor.
Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra segist ekki draga dul á að staða bænda í sumum greinum sé mjög erfið.
Verðhækkanir á aðföngum, olíu og fleiri þættir reynast landsbyggðinni þungir þessa daga. Atvinnugreinar sem heyra undir ráðuneyti Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, verða fyrir búsifjum af þessum og raunar fleiri ástæðum. Ráðherra segir að vandi mjólkurframleiðenda hafi að hluta til verið leystur með breytingum á verði fyrir framleiðsluna. Vandi annarra greina sé óleystur. Til dæmis eigi sauðfjárbændur mjög í vök að verjast.
„Ég útiloka ekki breytingar á frumvarpinu um innflutning á hráu kjöti. Þær eiga þá að verða til hagsbóta fyrir bændur og auka matvælaöryggi þjóðarinnar,“ segir Einar. „Ég er sáttur við umræðuna eins og hún þróaðist í vor. Þrátt fyrir andstöðu sáu menn að frumvarpið var ekki lagt fram að tilefnislausu og að það verður að breyta lögunum til að tryggja útflutningshagsmuni þjóðarinnar og uppfylla Evrópuskilmála sem við höfum undirgengist.“
„Þegar leið á umræðuna var það að mínu frumkvæði sem málinu var frestað og ég fagna því að nú er tækifæri til að fara nánar yfir það í sumar,“ segir ráðherrann. .