Clint Eastwood hefur svarað gagnrýni kollega síns, leikstjórans Spike Lee, en sá síðarnefndi sagði að Eastwood réði ekki nógu marga þeldökka leikara í myndir sínar. Lee fór fremur hörðum orðum um Eastwood en Óskarsverðlaunaleikstjórinn segir gagnrýnina óréttmæta með öllu.
„Við gerð Flags of Our Fathers reyndum við að hafa allar sögulegar staðreyndir á hreinu. Ef ég hefði farið að troða blökkumanni þar inn hefði fólk sagt að ég hefði misst vitið,“ sagði Eastwood. Lee sagði á Cannes-hátíðinni að honum þætti undarlegt að engir svartir leikarar væru í myndum Eastwoods um orrustuna á Iwo Jima.
„Ég tek ekki þátt í svona leikjum. Þegar ég gerði kvikmyndina Bird áttu 90% leikara að vera svartir og þeir voru það. Ég fer ekki að láta hvítan mann leika Nelson Mandela,“ sagði Eastwood, en næsta mynd hans er um hann.