Fulltrúar flóttamannanefndar á leið til Íraks

Al Waleed flóttamannabúðirnar.
Al Waleed flóttamannabúðirnar. mbl.is

Íslensk sendinefnd skipuð fulltrúum flóttamannanefndar og Útlendingastofnunar lagði í gær af stað til flóttamannabúðanna Al Waleed í Írak til að taka viðtöl við flóttafólk sem boðið verður hæli hér á landi nú í haust, að því er fram kemur í tilkynningu frá félagsmálaráðuneyti.

Þar segir að flóttafólkið dveljist í Al Waleed flóttamannabúðunum, sem liggja á einskismannslandi nærri landamærum Sýrlands, og búi við skelfilegar aðstæður. Það er mat Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að palestínskir flóttamenn í Írak séu í brýnni þörf fyrir öruggt skjól og fóru Sameinuðu þjóðirnar því þess á leit við íslensk stjórnvöld að veita hluta þeirra sem þar dvelja hæli.

Flóttafjölskyldurnar munu setjast að á Akranesi.

Hlutverk sendinefndarinnar er að ræða við fólkið, kynna því Ísland og meta hversu vel aðstæður hér á landi geta komið til móts við þarfir þess. Á milli 25 og 30 einstaklingum verður boðið að setjast að hér á landi. Ferð sendinefndarinnar tekur eina viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert