Mikill erill var hjá lögreglunni á Akureyri í nótt talsverð ölvun í bænum, að sögn lögreglu. Um þrjúleytið varð maður fyrir líkamsárás utan veitingastaðinn Kaffi Amor. Að sögn lögreglu er talið að hann hafi nefbrotnað og var einn maður handtekinn fyrir að veita honum áverka en hann er í vörslu lögreglu.
Þá brutust út hópslagsmál eftir klukkan þrjú fyrir utan veitingastaðinn Dátann. Í átökunum hlutu tveir lögreglumenn minniháttar meiðsl, og var einn maður handtekinn fyrir að veita þeim áverka.
Að sögn lögreglu hefur skapast ónæði af ölvuðu fólki fram á morgun og hefur lögregla fengið mikið af hávaðatilkynningum. Laust fyrir klukkan níu í morgun var lögreglu tilkynnt um mann sem gekk á milli bíla og reyndi að komast inn í þá. Var hann handtekinn en ekki hægt að ræða við hann sökum ölvunar.