Olíumál björgunarsveitar látið niður falla

Bílar Björgunarfélags Akraness. Myndin er tekin af heimasíðu félagsins.
Bílar Björgunarfélags Akraness. Myndin er tekin af heimasíðu félagsins.

Umferðareftirlit Vegagerðarinnar hefur sent forsvarsmönnum Björgunarfélags Akraness tilkynningu þar sem fram kemur að athugun,  sem fram fór á eldsneyti á bifreið björgunarfélagsins í maí, muni ekki leiða til frekari aðgerða af hálfu Vegagerðarinnar.

Björgunarsveitir nota svonefnda litaða olíu á bíla sína en sú olíu er undanþegin olíugjaldi. Snérist athugun umferðareftirlitsins um hvort félagar í björgunarfélaginu hefðu í þetta skipti verið að sinna erindum sem  ekki tengdust hefðbundinni starfsemi björgunarsveita. 

Ásgeir Örn Kristinsson, formaður Björgunarfélags Akraness, segir á heimasíðu félagsins að þetta mál og sú umfjöllun sem það fékk hafi komið illa við félagið. „Það er óþægilegt að vita til þess að einhverjum detti í hug að starfað sé eftir öðrum markmiðum í okkar félagskap heldur en að bæta samfélagið okkar. Engin ástæða var fyrir þessari könnun, eftirlitsmönnunum var gerð rækileg grein fyrir því að lituð olía væri á tanknum og verkefni bílsins og hópsins var í fullu samræmi við verkefni Björgunarfélags Akraness," segir Ásgeir. 

Hann segir að þessu máli sé lokið af hálfu Vegagerðarinnar en ekki af hálfu félagsins. „Eftir stendur að við þurfum að leggjast í rannsóknarvinnu og skoða hvort það lagaumhverfi sem við vinnum í er á einhvern hátt gallað. Hvort í því eru glufur sem við gætum dottið óvart í. En ég vona að enginn haldi því fram að við séum að brjóta vísvitandi á samborgurum okkar því  það er fjarstæða."

Heimasíða Björgunarfélags Akraness 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert