„Við bíðum bara og vitum ekki hvað hendir okkur. Við erum á skipi þar sem eldur er um borð og verðum bara að bíða eftir björgunarliðinu,“ sagði Högni Hoydal, utanríkisráðherra Færeyja, sallarólegur í samtali við blaðamann. Reyndar var ekkert að óttast því Högni var einn leikenda í fjölþjóðlegri björgunaræfingu á vegum Vestnorræna ráðsins í Færeyjum í gær.
Þarlend systrasamtök Landsbjargar, Landsfélag fyrir bjargningarfélög, eru gestgjafar æfingarinnar ásamt landhelgisgæslu Færeyja (MRCC-Tórshavn). Þá tekur danski sjóherinn þátt undir nafninu Færøernes commando.
Þingmennirnir eru Karl V. Matthíasson, sem einnig er formaður Vestnorræna ráðsins, Árni Johnsen, Jón Gunnarsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Guðni Ágústsson og Guðjón Arnar Kristjánsson. Með þeim eru, auk Högna, Aleqa Hammond, utanríkisráðherra Grænlands, Torbjörn Jacobsen, sjávarútvegsráðherra Færeyja, og um 20 þingmenn frá Danmörku, Svíþjóð og Færeyjum. Stjórnmálamennirnir mynda leikendahóp æfingarinnar ásamt embættismönnum og fleira fólki. Æfingin stóð allan laugardaginn og stendur hluta úr sunnudeginum, bæði á láði og legi.