Stórslys æft í Færeyjum

„Við bíðum bara og vitum ekki hvað hendir okkur. Við erum á skipi þar sem eldur er um borð og verðum bara að bíða eftir björgunarliðinu,“ sagði Högni Hoydal, utanríkisráðherra Færeyja, sallarólegur í samtali við blaðamann. Reyndar var ekkert að óttast því Högni var einn leikenda í fjölþjóðlegri björgunaræfingu á vegum Vestnorræna ráðsins í Færeyjum í gær.

Áfangi fyrir Færeyinga

Æfingin er sú fyrsta sinnar tegundar sem haldin er í Færeyjum frá því að heimastjórnin tók við landhelgis- og björgunarmálum úr hendi Dana og er að sögn mikilvægur liður í uppbyggingu þeirrar starfsemi. Hún er haldin í tengslum við þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um björgunarmál á N-Atlantshafi. „Þetta er mikilvægt mál fyrir Færeyjar,“ sagði Högni Hoydal. „Slysavarnir í norðurhöfunum eru mikilvægar því fleiri og fleiri skip eru að sigla hér um. Samstarf við önnur Norðurlönd, ekki síst Grænland, Ísland og Noreg er mikilvægt og við erum spenntir að sjá samstarfið batna milli færeyskra og íslenskra stjórnvalda.“

Þarlend systrasamtök Landsbjargar, Landsfélag fyrir bjargningarfélög, eru gestgjafar æfingarinnar ásamt landhelgisgæslu Færeyja (MRCC-Tórshavn). Þá tekur danski sjóherinn þátt undir nafninu Færøernes commando.

Meira en hundrað Íslendingar

Sem stendur eru sex íslenskir þingmenn ásamt fylgdarliði, 60 björgunarsveitarmenn frá Landsbjörgu og eitt íslenskt varðskip í Færeyjum. Sæbjörgin og tveir minni björgunarbátar eru á svæðinu, íslenskir björgunarjeppar og færanleg aðhlynningarstöð Landsbjargar.

Þingmennirnir eru Karl V. Matthíasson, sem einnig er formaður Vestnorræna ráðsins, Árni Johnsen, Jón Gunnarsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Guðni Ágústsson og Guðjón Arnar Kristjánsson. Með þeim eru, auk Högna, Aleqa Hammond, utanríkisráðherra Grænlands, Torbjörn Jacobsen, sjávarútvegsráðherra Færeyja, og um 20 þingmenn frá Danmörku, Svíþjóð og Færeyjum. Stjórnmálamennirnir mynda leikendahóp æfingarinnar ásamt embættismönnum og fleira fólki. Æfingin stóð allan laugardaginn og stendur hluta úr sunnudeginum, bæði á láði og legi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert