Eitt tilboð barst í gerð knattspyrnu- og frjálsíþróttasvæðis á íþróttasvæði Þórs. Er tilboðið upp á 299 milljónir og 47% yfir kostnaðaráætlun sem var 203 milljónir. Nýverið barst sömuleiðis eitt tilboð þegar boðið var út verk á svonefndu Sunnuhlíðarsvæði og var það 202% yfir áætluðum kostnaði. Hafnaði Akureyrarbær því tilboði.
Framkvæmdin á knattspyrnu- og frjálsíþróttasvæðinu snýst meðal annars um jarðvinnu, lagnir og frágang hlaupabrauta. Einar Jóhannsson, hjá fasteignum Akureyrarbæjar, sagði dræmar viðtökur við tilboðunum ekki hafa komið á óvart en menn hefðu þó vonast eftir betri undirtektum. „Stóru verktakarnir hafa samt svo mikið að gera þannig að það var alveg við þessu að búast.“
Nú eru bæði þessi tilboð vel yfir kostnaðaráætlun, sérstaklega vegna Sunnuhlíðarsvæðisins. Voru áætlanir raunhæfar? „Það er alltaf erfitt að segja en sjálfsagt voru áætlanir of lágar. Það nam samt ekki svona miklu,“ segir Einar.
Ákveðið verður síðar í vikunni hvort gengið verður að tilboði G. Hjálmarssonar í knattspyrnu- og frjálsíþróttasvæðið.
Sunnuhlíðarverkefnið verður ekki boðið út aftur heldur stendur Akureyrarbær sjálfur þar í framkvæmdum í tímavinnu með þjónustuaðilum.
Um miðjan mánuðinn verður boðin út þriðja íþróttaframkvæmdin, bygging á 1.000 áhorfenda stúku við Þórsvöllinn. Einar segir að búist sé við góðum undirtektum, þar væri bara um byggingarframkvæmdir að ræða og hingað til hefði gengið vel að fá í þær tilboð.