Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri eldsneytis hjá N1, segir fyrirtækið hafa ákveðið í dag að hækka bensínlítrann um 6 krónur og dísellítrann um 7 krónur. Hækkun N1 er sú sama og hjá Skeljungi og Olís, sem einnig hækkuðu eldsneytisverð í dag.
„Eftir að hafa farið mjög ýtarlega yfir tölur dagsins, var það niðurstaða okkar að hækka verðið," segir Magnús í samtali við mbl.is
Magnús telur þessa miklu hækkun dagsins eiga sér skýringu hjá veikri stöðu dollarans gegn öðrum myntum á undanförnum vikum og heimsmarkaðsverði á olíu sem fór í nýjar hæðir á föstudag. „Ein skýringin á hækkandi heimsmarkaðsverði á föstudaginn síðastliðinn var að ísraelskur ráðherra lét þau dýru orð falla að óumflýjanlegt væri að gera loftárás á Íran," segir Magnús og bætir við að hækkunin á föstudag hafi einnig stafað af frekari vantrú á stöðu Bandaríkjadollars.
Fyrir viku síðan hækkaði eldsneytisverð um 2 krónur og segir Magnús þá hækkun hafa stafað af veikingu krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar, og samhliða henni hækkaði heimsmarkaðsverðið.
Eftir hækkun dagsins er algengt verð í sjálfsafgreiðslu 170,40 krónur en 179 krónur með þjónustu. Algengt verð á lítranum á díselolíu er í sjálfsafgreiðslu 186,80 krónur, 191,80 með þjónustu.