Líklegt er vík sé nú á millum fyrrum verðandi vinkvenna, þeirra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra og bandaríska utanríkisráðherrans, Condoleezzu Rice, sem hafði hér mjög skamma viðdvöl á dögunum.
Samkvæmt upplýsingum Staksteina reiddist Condi Rice mjög ályktun Alþingis um fangabúðirnar á Kúbu, Guantanamo, sem utanríkisráðherra kynnti fyrir henni.
Þessi gagnmerka ályktun Alþingis var afgreidd nóttina áður en Rice kom hingað og kom utanríkisráðherranum því í opna skjöldu. Fullyrt er að þetta hafi verið það, sem kallað er á diplómatamáli faux pas, þ.e. að utanríkisráðherra Íslands hafi skrikað fótur í samskiptum við utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn hafi litið á þetta sem rakinn dónaskap af hálfu hinna íslensku gestgjafa.
Rice sé svo reið, að allar hugmyndir utanríkisráðherra um að þær gætu orðið einhvers konar vinkonur í hópi kvenna, sem gegni ráðherrastörfum, séu foknar út í veður og vind.
Það verði ekki auðvelt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu að komast að henni aftur og lítið verði hægt að reiða sig á stuðning Bandaríkjamanna í kosningum til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þetta er væntanlega ekki það sem lagt var upp með!