Franska flugsveitin, sem nú er á Keflavíkurflugvelli við loftrýmiseftirlit, fylgdist í morgun með tveimur rússneskum sprengjuflugvélum, sem flugu inn á íslenska flugstjórnarsvæðið. „Þetta minnir á gamla tíma," sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sem heimsótti Frakkana í dag.
Rússnesku flugvélarnar eru svonefndir birnir, sem eru langdrægar sprengjuflugvélar. Rússar létu norsk stjórnvöld vita um ferðir vélanna, sem voru sagðar í æfingaflugi, og Norðmenn komu þeim upplýsingum áfram til Íslendinga.
Rússnesku flugvélarnar komu inn á svæðið um klukkan 10 í morgun að norðan frá Noregi og flugu vestur fyrir landið og síðan suður fyrir það þar til þær hurfu um klukkan 12. Tvær af fjórum orrustuþotum Frakka flugu í veg fyrir rússnesku vélarnar fyrir vestan landið og fylgdu þeim eftir til að tryggja öryggi farþegaflugs en vélarnar senda frá sér merki fyrir borgaralega flugumferðastjórnunarkerfið. Það gera rússnesku flugvélarnar hins vegar ekki.
Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir að það sé jákvætt að Rússarnir hafi látið vita en íslensk stjórnvöld hafi gagnrýnt að sprengjuflugvélar komi án fyrirvara inn á íslenska flugstjórnarsvæðið.
Lengja dvölina um viku
Geir H. Haarde segir að Frakkarnir séu afar ánægðir með dvölina hér og aðstöðuna, sem þeim er búin. Þeir telji mikilvægt að geta æft við aðrar aðstæður en þeir eru vanir. Ætlar sveitin að vera viku lengur en upphaflega var áætlað og fer héðan undir lok mánaðarins en upphaflega stóð til að Frakkarnir færu héðan 20. júní. Þeir hafa verið hér frá 5. maí.
Geir sagði, að gert væri ráð fyrir að bandarísk flugsveit kæmi hingað í september til loftrýmiseftirlits og síðan væri gert ráð fyrir að Bretar sæju um eftirlitið tímabundið. Þessi loftrýmisgæsla byggist af hálfu NATO á því, að ekkert NATO ríki skuli vera án slíkrar gæslu og að þau ríki sem ekki hefðu yfir
Geir hitti einnig stjórnendur Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og Keilis og skoðaði lóðina í Helguvík þar sem fyrsta skóflustunga að væntanlegu álveri Norðuráls var tekin á föstudag.