Sjö íslensk skip voru við veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum í gær suður og austur af Jan Mayen, um 500 sjómílur frá Hornafirði. Að sögn Guðjóns Jóhannssonar, skipstjóra á Hákoni EA, ganga veiðarnar vel, enda hefur vinnslan um borð ekki stöðvast eitt augnablik í túrnum. Hákon EA hélt til veiða eftir sjómannadag en stefnir á löndun um miðja vikuna. „Stærsta hollið hjá okkur var um 400 tonn,“ segir Guðjón, sem notar flottroll við veiðarnar og vill helst ekki fá meira en 150 tonn í hverju kasti. Nótaskipið Sigurður VE, sem gert er út af Ísfélaginu í Vestmanneyjum, er að sögn útgerðarstjóra á leið til löndunar á Norðfirði næsta þriðjudag. Afrakstur veiðiferðarinnar er fullfermi, 1.450 tonn.
Um áttaleytið í gær kom Ásgrímur Halldórsson SF til Hafnar í Hornafirði með 600 tonn af síld til vinnslu og 600 tonn til bræðslu. Sigbjörn Guðmundsson stýrimaður segir yfirleitt hafa verið togað í fjóra til níu tíma og hvert kast hafi gefið á bilinu 100-300 tonn, en þar á bæ er einnig notað flottroll.
Ekki voru önnur fley en íslensk á svæðinu fyrir utan eitt færeyskt. Af öðrum íslenskum skipum má nefna Vilhelm Þorsteinsson EA, Bjarna Ólafsson AK, Börk NK og Júpíter ÞH.