„Þetta kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ segir Kormákur Geirharðsson, vert á Ölstofunni, en honum og eigendum Vegamóta bárust nýverið bréf frá borgaryfirvöldum þar sem þeim er gert að stytta opnunartíma sinn um helgar og loka kl. 03 í staðinn fyrir kl. 05.30 eins og verið hefur. Bendir Kormákur á að ekki séu nema nokkrir dagar síðan hann mætti á fund með m.a. lögreglustjóra, borgarstjóra og forsvarsmönnum Laugavegarsamtakanna.
„Þar sem Stefán Eiríksson, lögreglustjóri borgarinnar, lýsti því yfir að ekki yrði farið í aðgerðir til að stytta opnunartímann, heldur ætti að vinna saman að því að finna lausnir á næstu þremur mánuðum,“ segir Kormákur og óttast að fleiri staðir fái sams konar fyrirmæli um styttingu á næstunni og það muni kippa fótunum undan rekstrargrundvelli veitingastaða í borginni.
Að sögn Kormáks þurfti Ölstofan að endurnýja rekstrarleyfi sitt þegar öll leyfi voru nýverið sameinuð í eitt leyfi en fyrir var Ölstofan með leyfi sem gilti til 2010. „Við munum ekki láta þetta yfir okkur ganga, enda leysir þetta ekki vanda miðborgarinnar,“ segir hann.