Lögskilnaðir árið 2007 voru 515 talsins og 603 pör skráðu sig úr sambúð
hjá Þjóðskrá samkvæmt bráðabirgðatölum. Af þessum 515 lögskilnuðum voru
310 fjölskyldur þar sem úrskurða þurfti um forsjá barna undir 18 ára
aldri. Af sambúðarslitunum voru 376 barnafjölskyldur, að því er segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.
Sameiginleg forsjá algengasta forsjárfyrirkomulagið
Árið 1992 var sameiginleg forsjá færð í lög. Síðan þá hefur það forsjárfyrirkomulag færst mjög í vöxt. Árið 1992 fóru mæður með forsjá barna úr lögskilnuðum í 89% tilfella en feður í 9%. Það ár fóru 2% foreldra sameiginlega með forsjá eftir lögskilnað.
Árið 2000 var sameiginleg forsjá úr lögskilnuðum nánast jafn algeng (47%) og að mæður færu með forsjá (49%). Árið 2007 var sameiginleg forsjá úr lögskilnuðum algengasta forsjárfyrirkomulagið, en þá fóru 76% foreldra sameiginlega með forsjá barna sinna en 22% mæðra og 2% feðra.
Sameiginleg forsjá er algengari úr sambúðarslitum en lögskilnuðum. Árið
1992 fóru 9% foreldra sem slitu sambúð sameiginlega með forsjá, 88%
mæðra og 4% feðra. Árið 2000 var forsjá sameiginleg í 59% tilfella á
meðan mæður fór með forsjá í 40% tilfella en feður í 1% tilfella. Árið
2007 var sameiginleg forsjá hins vegar valin í 90% tilfella.