Aukin sala á áfengi

Velta í dagvöruverslun jókst um 2,4% í maí síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi. Á breytilegu verðlagi nam aukning veltu í dagvöruverslun 17,5% á milli ára. Á milli mánaðanna apríl og maí jókst veltan um 7,1% á föstu verðlagi og um 9,4% á breytilegu verðlagi.

Ekki er þó um magnaukningu að ræða í veltu dagvöruverslunar þegar tekið hefur verið tillit til þess að í maí voru fimm föstu- og laugardagar en í maí í fyrra voru þeir fjórir, að því er segir í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Árstíða- og dagaleiðrétt er velta dagvöruverslunar í maí því heldur minni en í sama mánuði í fyrra og 3,6% minni en í apríl, mánuðinum á undan, á föstu verðlagi. Þetta er annar mánuðurinn i röð sem veltan minnkar þegar vísitalan hefur verið árstíðaleiðrétt með þessum hætti.
 
Sala áfengis jókst um 13,2% í maí miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og um 19,8% á breytilegu verðlagi. Í maí var velta áfengisverslunar 18,9% meiri en í apríl þar á undan miðað við fast verðlag og á breytilegu verðlagi nam aukningin 21%.

Líkleg skýring á þessari auknu sölu áfengis er fimmta helgin í maí sem viðmiðunarmánuðirnir hafa ekki. Verð á áfengi hækkaði um 5,8% frá því í maí í fyrra.
 
Aukin sala á fatnaði og skóm

Fataverslun jókst einnig á milli ára og var 9,9% meiri í maí miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um 15,7% á breytilegu verðlagi. Á milli mánaðanna apríl og maí jókst veltan um 15,3% á breytilegu verðlagi og um 12,7% á föstu verðlagi. Verð á fötum hækkaði um 5,3% á einu ári.
 
Þá varð einnig aukning í skóverslun í maí miðað við mánuðinn á undan og nam 11,9% á föstu verðlagi og um 15,6% á breytilegu verðlagi. Hins vegar dróst veltan saman um 0,1% ef miðað er við maí í fyrra á föstu verðlagi en jókst um 6,4% á breytilegu verðlagi. Verð á skóm í apríl hafði hækkað um 6,5% frá því í maí í fyrra.
 
Í maí jókst velta í húsgagnaverslun um 5,8% á föstu verðlagi miðað við mánuðinn á undan og um 9,4% á föstu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 10,2% frá því um áramótin. 

Samanlögð velta í þeim flokkum smásöluverslunar sem mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar ná til jókst um 6,6% á milli maí á þessu ári og maí í fyrra á föstu verðlagi og um 19,4% á breytilegu verðlagi.

12% af heildarútgjöldum heimila fer í mat og drykkjarvöru

„Verðhækkanir á matvælum virðast hafa leitt til þess að samdráttur hefur orðið í magni seldra vöru í dagvöruverslun þrátt fyrir aukna veltu. Þetta sést þegar tekið er tillit til óvenju margra söludaga í maí. Varhugavert er því að draga þá ályktun að þessi beina veltuaukning í verslun séu merki um aukningu á einkaneyslu.

Líklegra er að smásöluvísitalan gefi til kynna að einkaneysla hafi dregist saman. Þess má geta að verð á dagvöru í maí hafði hækkað um 14,8% á einu ári og um 10,1% frá áramótum.
 
Athygli vekur að hlutfall þeirra útgjalda sem heimilin í landinu verja til kaupa á mat og drykkjavöru nemur 12% af heildarútgjöldum þeirra, samkvæmt niðurstöðum nýrrar útgjaldarannsóknar Hagstofunnar. Þetta hlutfall hefur ekki mælst lægra áður og nálgast að hafa svipað vægi og heimilin verja til tómstunda og menningar, sem er 11,6%," að því er segir í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka