Bíður ákæru eftir sex og hálfs árs rannsókn

Jón Ólafsson.
Jón Ólafsson. mbl.is/Jón H. Sigmundsson

 „Ég bíð eftir ákærunni, ef einhver verður. Þetta er þung byrði fyrir mig að bera. Ég veit ekki hvers vegna málið hefur verið svo lengi í rannsókn [...] Líklega af því að lögreglan hefur verið svo upptekin af Jóni Ásgeiri [Jóhannessyni] forstjóra Baugs,“ segir Jón Ólafsson kaupsýslumaður.

Rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á skattamálum Jóns er lokið og verður ákvörðun tekin um ákæru innan næstu fjögurra vikna, samkvæmt heimildum 24 stunda. Rannsókn á skattamálum Jóns hófst með húsleit í höfuðstöðvum fjölmiðlafyrirtækisins Norðuljósa í febrúar 2002. Rannsókn málsins hefur því staðið yfir í tæplega sex og hálft ár.

Málið snýst um það hvernig skattgreiðslum Jóns var háttað á árunum 1998 til 2001.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattamálum Jóns lauk fyrir um fimm árum. Þá var málinu vísað til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra til rannsóknar. Langur rannsóknartími skýrist af miklu umfangi málsins, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, vildi ekki tjá sig um efnisatriði málsins. „Lögmenn mínir, Ragnar [Aðalsteinsson] og Sigurður G. [Guðjónsson], telja þennan langa rannsóknartíma vera mannréttindabrot, miðað við Mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir Jón.

Á upphafsstigum málsins var Jóni gefið að sök að hafa skilað röngum skattframtölum; vantalið eignir og tekjur.

Kröfu Jóns um niðurfellingu málsins hefur verið vísað frá í Hæstarétti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert