Vegna stórhækkunar á eldsneytisverði að undanförnu eru Íslendingar farnir að hugsa sig tvisvar um áður en þeir leggja í langferð á bílum sínum. Þetta er samdóma álit þeirra, sem Morgunblaðið ræddi við.
Og nýjustu tölur um umferð um Hvalfjarðargöngin renna stoðum undir þessa skoðun. Í maí sl. fækkaði bílum sem fóru um göngin um 2,7% miðað við sama mánuð í fyrra. Þar með stöðvaðist þróun sem heita má að hafi verið frá því göngin voru tekin í notkun um mitt ár 1998. Öll árin hefur hefur verið fjölgun bíla sem farið hafa um göngin. Fyrsta heila árið, þ.e. 1999, fóru 1.030.587 bílar um göngin. Í fyrra fóru 2.030.763 bílar um göngin. Þetta er fjölgun um rúmlega milljón bíla. Mesta aukningin var árið 2005, en það ár fóru 19,2% fleiri bílar um göngin er árið 2005.
Sigurður Ingi Jónsson, verkefnastjóri hjá Speli, sem sér um rekstur ganganna, segir að hækkun eldsneytisverðs sé langlíklegasta skýringin á fækkun bíla sem fara um göngin. Hugsanlegur samdráttur í verkefnum á svæðinu og þar af leiðandi samdráttur í atvinnu geti ekki skýrt þann samdrátt sem orðið hefur á bílaumferð að undanförnu.
Sigurður Ingi segir segir að lang-marktækasti samanburðurinn fáist með því að bera saman sömu vikur á ári hverju. Þegar skoðuð er 22. vika ársins 2008, þ.e. 25. til 31. maí, kemur í ljós að 42.752 bílar fóru um göngin, miðað við 48.403 bíla sömu viku í fyrra. Samdrátturinn er sláandi mikill eða 11,7%.
Vegagerðin er með umferðarmælingar víða um land en þar voru ekki tiltækar nýjar upplýsingar, þegar leitað var eftir þeim í gær.
Olíufélögin höfðu heldur ekki tiltækar nýjar upplýsingar um eldsneytissölu. Talsmenn þeirra segja að of skammt sé liðið á íslenska ferðasumarið til að samanburður sé marktækur. Það sé þó tilfinning manna að fólk velti því meira fyrir sér en áður hvort það það leggi í langferðir á bílum sínum.