Sigurður VE-15 landaði fullfermi af síld hjá Hraðfrystistöð Þórshafnar í gær og er það fyrsta síldin á vertíðinni á Þórshöfn. Hún fer öll í bræðslu, um 1500 tonn.
Síldin var veidd norðaustur af Jan Mayen í sjö köstum, sagði skipstjórinn Kristbjörn Árnason, sem betur er þekktur undir nafninu Bóbi og var því alllöng sigling til Þórshafnar. Hann sagði síldina vera þokkalega, hvorki betri né verri en á meðalvertíð og strax að lokinni löndun verður siglt beint á veiðar aftur.
Bóbi, sem á að baki rúmlega fjörutíu ára sjómennsku, er ekki hrifinn af flottrollinu við síldar- og loðnuveiðar. Hann telur að þetta veiðarfæri valdi miklu tjóni og eigi stóran þátt í því hvernig ástandið er almennt á miðunum: „Hefðu menn haldið sig við nótina, þá hefði verið nóg handa öllum,“ sagði þessi reyndi skipstjóri sem telur að ekki hafi allar breytingar orðið til góðs í gegnum tíðina.