Forsætisráðherra eyjarinnar Dóminíku í Karabíahafi segir, að sendinefnd landsins á ársfundum Alþjóðahvalveiðiráðsins muni ekki lengur greiða atkvæði með Japönum og öðrum hvalveiðiþjóðum í atkvæðagreiðslum þar.
Landið hefur undanfarin átta ár greitt atkvæði með Japönum í hvalveiðiráðinu en Roosevelt Skerrit tilkynnti í útvarpsávarpi á sunnudag, að hér eftir muni sendinefnd landsins sitja hjá í atkvæðagreiðslum um hvalveiðar í hvalveiðiráðinu og sagði að þannig væri hagsmunum eyjarinnar best þjónað.
Japanar hafa veitt Dóminíku mikla þróunaraðstoð á undanförnum árum og m.a. aðstoðað eyjarskeggja að byggja upp sjávarútveg og fiskvinnslu. Umhverfisverndarsinnar hafa sakað Japana um að kaupa sér stuðning fátækra Kyrrahafseyja í hvalveiðiráðinu með þessum hætti en því hafa japönsk stjórnvöld vísað á bug.
Dóminíka, sem var áður bresk nýlenda, hefur verið að byggja upp ferðaþjónustu og lagt áherslu á umhverfisvernd í því sambandi.