Heilsugæslunni gert að flytja

Heilsugæslan í Árbæ flytur í bráðabirgðahúsnæði á næstu dögum. Vinnueftirlitið hefur dæmt húsnæðið ónothæft á meðan ekki hefur verið bætt úr rakaskemmdum. Lítilsháttar röskun verður á starfseminni þar sem hugsanlega þarf að loka í einn dag vegna flutninganna. Tekið hefur verið á leigu húsnæði Hreyfigreiningar að Höfðabakka 9 og er undirbúningur flutninga í fullum gangi.

Vinnueftirlitið lokaði u.þ.b. helmingi heilsugæslustöðvarinnar hinn 26. maí sl., vegna gruns um að veikindi tveggja lækna stöðvarinnar mætti rekja til ástands húsnæðisins. Loftsýni voru send til Svíþjóðar og allt starfsfólk stöðvarinnar undirgekkst læknisskoðun. „Það liggur fyrir, sem betur fer, að engin hættuleg eiturefni voru í þessum sýnum. En hins vegar er það rými sem Vinnueftirlitið lokaði ónothæft þar til viðgerð og endurbætur hafa farið fram. Og það er greinilegt að skemmdirnar eru af þeirri stærðargráðu að við munum þurfa að flytja starfsemina á næstu dögum,“ segir Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir heilsugæslunnar.

Hvað varðar læknana tvo sem veiktust eru einkenni þeirra til rannsóknar á Landspítala. Ekki liggur fyrir hvenær niðurstaða fæst, einkennin voru afar væg, og læknarnir eru báðir við störf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert