Margrét Lindquist, nýútskrifaður grafískur hönnuður frá Myndlistarskólanum á Akureyri, hefur verið valin „nemandi ársins í Evrópu árið 2008", af ADCE, Evrópusamtökum grafískra hönnuða. Margrét hlaut viðurkenningu í keppni Félags íslenskra teiknara fyrr á árinu, sem leiddi til þess að hún tók þátt í Evrópukeppni.
„Þetta er alveg frábært, ég fékk að vita þetta í gær," segir Margrét en Hörður Lárusson, formaður FÍT, sem var staddur á keppninni í Barcelona um helgina, hringdi í hana og tjáði henni fréttirnar.
Margrét sendi verk í keppnina, sem hún hafði gert í vöruhönnunaráfanga í skólanum, þar sem unnið var með drykkjarvöru.
„Ég vildi gera flösku fyrir íslenskt vatn, og vinna með tærleikann og því ferska eða þessum grundvallaratriðum sem vatn stendur fyrir," segir Margrét og bætir við að hún hafi viljað gera flösku sem væri líka skraut, t.d á veitingastöðum og þegar borð er dekkað. „Hringirnir á flöskunni eru dropar á vatnsyfirborði. Þaðan kom hugmyndin að hringjunum, hvíti liturinn er táknrænn fyrir hið tæra og kalda í vatni," segir Margrét.
Margrét segir markmið keppninnar að styrkja og hjálpa nemendum að koma sér á framfæri, og vonar hún að þessi viðurkenning hjálpi henni við það. Að sögn Margrétar gefur ADCE út stóra hönnunarbók á hverju ári þar sem allt er tekið fram um verk hönnuða, sem óneitanlega kemur sér vel fyrir nýútskrifaðan hönnuð.