Norræna kom til Seyðisfjarðar klukkan rúmlega níu í morgun, eða tæpum þremur tímum á undan áætlun, en ekki verður hægt að tollafgreiða skipið fyrr en um hádegið þar sem tollgæslulið með fíkniefnahunda er á leið með flugi frá Reykjavík.
Jóhann Freyr Aðalsteinsson, deildarstjóri tollgæslunnar á Seyðisfirði, segir að skipið hafi komið til hafnar á undan áætlun vegna veðurs. Það gerist stundum að Norræna sé á undan áætlun, og misjafnt sé eftir því hvernig standi á hvort þá sé hægt að tollafgreiða skipið strax.
Biðin á afgreiðslunni nú sé í samráði við Smyril Line, sem gerir Norrænu út, og hafi engin áhrif á áætlun hennar.