Segir sig úr Kennarasambandi Íslands

Ósk Finnboga Rögnvaldssonar kennara við Fjölbrautaskóla Vesturlands til Kennarasambands Íslands um skýringar á launagreiðslum til tveggja stjórnarmanna orlofssjóðs sambandsins hefur verið til umfjöllunar síðustu dagana. Að fengnu samráði lögmanns ákvað stjórn og Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, að synja Finnboga um fylgiskjöl að baki þessum launagreiðslum. Álit lögmanns KÍ var að ekki væri heimilt að afhenda afrit að þeim gögnum sem um var beðið á grundvelli einkahagsmuna. Í kjölfarið sagði Finnbogi sig úr sínu stéttarfélagi og þar með tengslum við Kennarasambandið.

Finnbogi segir líklegt að beðni sinni hafi verið hafnað á þeirri forsendu að hann hafi sótt um gögnin sem einstaklingur. Hann telur einsýnt að Kennarafélag FVA muni í kjölfarið óska eftir þeim.

Finnbogi segir forsögu þessa máls þá að á aðalfundi Kennarafélags FVA 22. maí sl. hafi Kristján Guðmundsson fulltrúi félagins á aðalfundi KÍ 11. apríl sl. greint frá því að miklar umræður hafi orðið um reikninga orlofssjóðs sambandsins. Mörgum þingfulltrúum hafi ofboðið háar greiðslur til tveggja fyrrum stjórnarmanna sjóðsins, upp á um 11 milljónir króna. Þá hafi þingfulltrúum fundist það óeðlilegt að stjórnarmenn sjóðsins ynnu alla þessa vinnu sjálfir í stað þess að ráða utanaðkomandi aðila til verka. Í greinargerð frá formanni og stjórn KÍ vegna málsins kemur fram að umræddar greiðslur hafi verið fyrir akstur, dagpeningar og þóknanir fyrir fundarsetur samkvæmt ákvörðun stjórnar Orlofssjóðs. Umrædd fylgisskjöl eða reikningar bak við greiðslurnar hafi legið frammi á aðalfundi KÍ.

Finnbogi Rögnvaldsson segir sérkennilegt að fyrst að gögnin lágu frammi á aðalfundinum sé ekki hægt að láta hinum almenna félagsmanni þau í té. Kennarasambandið telji sig undanþegna upplýsingaskyldu og það sé athyglis- og umhugsunarvert. „Þetta gefur tilefni til tortryggni,“ segir Finnbogi.

Tekið af fréttavef Skessuhorns. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert