Sektaður fyrir að flytja inn ástarhandjárn

Venjuleg handjárn.
Venjuleg handjárn.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í 40 þúsund króna sekt fyrir að reyna að flytja inn 36 „ástarhandjárn" og krem, sem innihélt lyf.  

Varningurinn var í vörusendingu, sem lagt var hald á árið 2006. Í sendingunni voru m.a. 36 sett af handjárnum úr málmi og  24 túpur af Anal-ease kremi auk 14 nuddtækja, banda, kúlna og svipa. Einnig voru í sendingunni 24 glös af svonefndri spanskflugu, vökva sem talinn er kynörvandi.

Í dómnum er vitnað í bréf aðstoðaryfirlögregluþjóns á höfuðborgarsvæðinu til innflytjandans varðandi handjárnin þar sem segir:  „,Um er að ræða svokölluð „love cuffs” og eru ætluð til nota í ástarleikjum. Handjárnin eru allvönduð, úr málmi og fóðruð. Á þeim er rofi og ef þrýst er á rofann opnast járnin. Auðvelt er að ná til rofans séu hendur járnaðar með einu setti. Ef aðili er járnaður með einum járnum um hvorn úlnlið og til dæmis við sitt hvorn rúmstólpann er vonlaust að opna þau án utanaðkomandi hjálpar.“

Beðið var um rannsókn og mat Lyfjastofnunar á innihaldi kremtúpanna og samkvæmt niðurstöðu stofnunarinnar innihélt Anal-ease kremið Benzocain 10% sem er lyf og þarf sérstakt leyfi til að flytja inn.

Maðurinn kannaðist við að hafa flutt inn umrædd handjárn og túpur og ætlað að selja varninginn í verslun sem hann rekur. Hann sagðist hafa talið, að innflutningurinn væri heimill enda hefði hann flutt handjárn af þessu tagi inn áður og handjárn væru til sölu hér á landi í leikfangaverslunum og kynlífsverslunum.

Þá sagðist hann ekki hafa gert sér grein fyrir að kremið innihéldi ólöglegt efni og væri því ekki leyft til innflutnings.

Dómurinn vitnar í ákvæði vopnalaga um að öðrum en lögreglu sé óheimilt að flytja til landsins, framleiða eða eignast handjárn og fótajárn úr málmi eða öðru efni. Enda þótt taka megi undir að umrædd handjárn virðist auðlosanleg við flestar aðstæður verði ekki fram hjá því horft að orðalag vopnalagaákvæðisins sé  fortakslaust og geri engan greinarmun á handjárnum eftir því hvernig þau eru útbúin með tilliti til læsingabúnaðar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert