Átján milljónir króna, sem fengist hafa fyrir sölu á notuðum fatnaði er gefinn hefur verið til Rauða krossins á síðasta ári, verða afhentar til hjálparstarfs samtakanna í dag. Þetta er hæsta framlag sem fengist hefur fyrir notaðan fatnað á einu ári hér á landi síðan fatasöfnunarverkefnið hófst fyrir átta árum.
Í fréttatilkynningu frá Rauða krossinum segir ennfremur:
Alls komu um 130 sjálfboðaliðar að þessu verkefni Rauða krossins árið 2007 sem störfuðu launalaust við söfnun, flokkun og sölu fatnaðarins. Allur hagnaður af verkefninu fer til alþjóðlegs hjálparstarfs.
Að þessu sinni fara átta milljónir króna í verkefni Alþjóða Rauða krossins í Palestínu. Tíu milljónum króna verður varið í neyðaraðstoð Alþjóða Rauða krossins í Sómalíu þar sem hundruð þúsunda Sómala þjást af matar- og vatnsskorti í kjölfar harðnandi átaka og þurrka.
Alþjóða Rauði krossinn sendi frá sér neyðarbeiðni í síðustu viku vegna ástandsins í Sómalíu sem er talið vera mesti harmleikur sem riðið hefur yfir landið á undanförnum áratug. Stór hluti íbúa er örmagna eftir langvarandi átök og erfiða lífsbaráttu, en þurrkar í landinu hafa nú enn aukið á neyðarástand þar.