Íbúðalánasjóður hefur sent frá sér tilkynningu vegna fréttar í 24stundum í dag en þar kom fram að sjóðurinn íhugi að stöðva útlán til nýbygginga þar sem mest sé af auðu og ónýttu húsnæði. Sjóðurinn segir, að engin breyting hafi orðið á lánveitingum sjóðsins, hvorki til nýbygginga né notaðs húsnæðis.
„Einstaklingar hafa sama rétt og aðgengi og jafnan áður að lánveitingum sjóðsins. Talsverð ásókn er nú í lán til leiguíbúða og fokheldislán til verktaka og hefur engum slíkum lánveitingum verið hafnað. Þau mál eru hinsvegar til athugunar hjá stjórn sjóðsins hverju sinni, m.a. nú í ljósi frétta um að mikið sé um óselt húsnæði á ýmsum byggingarstigum," segir í tilkynningu Íbúðalánasjóðs.