Engin lán á ný hús

Byggingaframkvæmdir
Byggingaframkvæmdir mbl.is/ÞÖK

Íbúðalánasjóður hefur fengið sérfræðinga til að gera úttekt á framboði og eftirspurn eftir húsnæði á öllum landsvæðum. Stjórn sjóðsins hittist í byrjun vikunnar og ræddi stöðuna á íbúðamarkaðnum og hugsanleg ráð til bjargar þar sem erfiðleikar eru miklir.

Guðmundur Bjarnason, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir að þeirri tölu hafi verið fleygt að um 4.000 íbúðir standi auðar og óseldar á byggingarstigi, sumar ókláraðar en aðrar nærri fullbúnar.

„Við ætlum að láta kanna fyrir okkur hver fjöldinn er í raun. Vinna er hafin og búið að ljúka skýrslum vegna Suðurnesja og Austfjarða, en niðurstaðan verður ekki kynnt fyrr en rannsókn á öðrum landsvæðum liggur fyrir og heildarmyndin telst skýr.“

Guðmundur segir þó þegar ljóst að á báðum þessum landsvæðum sé mikið af byggingum sem ekki er lokið og ekki hefur tekist að selja. „Það er full ástæða til að fara með varúð hvað varðar lánveitingar þar sem offramboð er á húsnæði.“

Ekki neitað um lán ennþá

„Við hljótum að skoða hvort skynsamlegt sé að gefa lánsvilyrði þar sem búið er að byggja nóg og hvort sjóðurinn geti frekar komið til aðstoðar við að breyta eignarhúsnæði í leiguhúsnæði svo að það nýtist sem slíkt, þörfin þarf þó að vera fyrir hendi.“ Íbúðalánasjóður hefur ekki neitað um nein lán ennþá. Hins vegar hefur hann tekið sér tíma til að fara vandlega yfir umsóknir frá tilteknum svæðum og kanna aðstæður til hlítar áður en svarað er.

Fyrsta sinn í tíð sjóðsins

„Vonandi kemur ekki til þess að sjóðurinn fari að neita öllum lánum til nýframkvæmda á ákveðnum svæðum. En mikið hefur verið byggt umfram þörf og þá getur ekki verið skynsamlegt að halda áfram að lána. Þetta er í fyrsta skipti í minni tíð sem sjóðurinn íhugar að draga úr eða stöðva lánveitingar vegna offramboðs,“ segir Guðmundur Bjarnason.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert