Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt fjóra karlmenn í fangelsi fyrir innflutning á fíkniefnum en í málinu var lagt hald á rúm 4,7 kíló af amfetamíni, 596 grömm af kókaíni og 13 millilítra af steralyfi.
Sá sem þyngsta dóminn hlaut, Annþór Kristján Karlsson, sem er 32 ára, var dæmdur í 4 ára fangelsi. Tómas Kristjánsson, 29 ára, var dæmdur í 2½ árs fangelsi. Þá voru tveir bræður, 24 og 29 ára, dæmdir í 1½ árs fangelsi hvor. Allir hafa mennirnir setið í gæsluvarðhaldi frá því í janúar.
Þeir Annþór og Tómas og bræðurnir tveir voru fundir sekir um að hafa staðið saman að því að flytja fíkniefnin til landsins frá Þýskalandi. Efnin voru flutt til landsins með hraðsendingafyrirtæki þar sem Tómas starfaði en fundust við leit tollgæslu og lögreglu í nóvember í bíl fyrirtækisins á Keflavíkurflugvelli í nóvember.
Þeir Annþór og Tómas neituðu sök en dómurinn taldi sekt þeirra sannaða, m.a. með framburði bræðranna, sem játuðu sinn hlut í málinu. Segir í dómnum að brot þeirra Annþórs og Tómasar séu stórfelld og þeir eigi sér engar málsbætur. Annþór Kristján hefur frá árinu 1993 hlotið 10 refsidóma fyrir skjalafals, þjófnað, nytjastuld, líkamsárás, húsbrot, frelsissviptingu og fíkniefnabrot. Tómas hefur áður fengið refsingu fyrir eignaspjöll.
Fram kemru að bræðurnir tveir hafi játað brot sín hreinskilnislega og við blasi að framburður þeirra hafi verið mjög mikilvægur og skipt sköpum til að unnt yrði að upplýsa málið. Er þetta virt þeim til refsilækkunar.