Flestir starfsmenn Fiskisögu endurráðnir

Flestir þeirra starfsmanna sem sagt var upp störfum hjá Fiskisögu um síðustu mánaðarmót hafa ákveðið að þiggja starf hjá móðurfélaginu, Nordic Sea, að sögn Guðlaugs Magnússonar, framkvæmdastjóra Nordic Sea. Öllum starfsmönnum Fiskisögu var sagt upp um síðustu mánaðarmót en var boðið endurráðning hjá öðrum félögum í eigu Nordic Sea, nýstofnuðu dótturfélagi fjárfestingarfélagsins Nordic Partners.

Að sögn Guðlaugs voru uppsagnirnar liður í hagræðingu og endurskipulagningu rekstrar en engum var sagt upp hjá öðru félagi sem tilheyrir Nordic Sea, Sjófisk. Þar starfa 58 manns. Segir Guðlaugur að stór hluti þeirra starfsmanna sem var sagt upp um síðustu mánaðarmót hafi verið endurráðinn á sömu kjörum en einhverjar breytingar hafa verið gerðar á kjörum annarra.

Vonast Guðlaugur til þess að með hagræðingu í rekstri verði hægt að lækka verð á fiski í verslunum Fiskisögu án þess að geta gefið frekari upplýsingar þar að lútandi að svo stöddu. 

Við breytingarnar um síðustu mánaðarmót, þegar Fiskisaga og Sjófiskur voru sameinuð undir einn hatt, Nordic Sea, hafi framkvæmdastjórum verið fækkað og er Guðlaugur nú einn framkvæmdastjóri Nordic Sea.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert