Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG og fulltrúi flokksins í velferðarráði borgarinnar, segist hafna útskýringum meirihluta ráðsins sem rökum fyrir því að ætla að hafna tilboði SÁÁ vegna búsetuúrræðis fyrir 20 einstaklinga og semja þess í stað við Heilsuverndarstöðina/Alhjúkrun.
Þorleifur segir í bókun, sem hann lagði fram á fundinum, að það sé óumdeild staðreynd að tilboð SÁÁ hafi verið lægst eða um fjórðungi lægra en tilboð Heilsuverndarstöðvarinnar/Alhjúkrunar. Þó svo meirihlutinn telji þessa starfsemi ekki útboðsskylda þurfi veigamikil rök til að hafna lægsta tilboði og gera verði kröfu um að sýnt verði fram á það með málefnalegum hætti að um sé að ræða yfirburði Heilsuverndarstöðvarinnar á þeim sviðum sem þjónustan taki til og réttlæta þannig þá ákvörðun að borga meira fyrir af almannafé.
Segir Þorleifur einnig, að ekki sé óeðlilegt að ætla að í raun hafi verið búið að ákveða að fara í samstarf við Heilsuverndarstöðina/ Alhjúkrun áður en auglýst var eftir samstarfaðilum.