Flugfélagið Icelandair leitar nú eins og önnur flugfélög leiða til að lækka eldsneytiskostnað. Þetta kemur fram í fréttabréfi Félags íslenskra atvinnuflugmanna og segir að meginmarkmiðin séu tvö: Að hafa vélina sem léttasta þegar lagt er af stað og minnka eldsneytisbrennslu.
Í fréttabréfinu segir, að reikna megi með að fyrir hver tíu kíló sem hægt sé að létta vélarnar á öllum leggjum í ætlun félagsins, megi spara um 1,5 milljónir á ársgrundvelli.
Þá megi reikna með því, að ef hægt væri að minnka brennslu um tíu kíló á hvern klukkutíma á öllum leggjum í áætlun félagsins sparist um 40 milljónir á ársgrundvelli.
Verð á eldsneyti hefur fjórfaldast frá árinu 2000, þar af næstum tvöfaldast síðasta ári. Alþjóðasamband flugfélaga hefur reiknað út að hækkanir undanfarið muni auka eldsneytiskostnað flugfélaga á heimsvísu
á þessu ári um 74 milljarða dala og þykir það raunar varlega áætlað.