Reiðhöll rís í Grindavík

Bæjarráð Grindavíkur styrkir hestamannafélagið um 50 milljónir til byggingar reiðhallar
Bæjarráð Grindavíkur styrkir hestamannafélagið um 50 milljónir til byggingar reiðhallar Mbl/Rax

Bæjarstjórn Grindavíkur styrkir Grindavíkurdeild Hestamannafélagsins Mána um 50 milljónir til byggingar á reiðhöll í nýju framtíðar hesthúsahverfi Grindvíkinga. Skrifað var undir samning í Saltfiskssetrinu í dag. 

„Reiðhöll mun efla íþróttagreinina með því að gjörbreyta allri aðstöðu fyrir inniæfingar og þjálfunarmöguleikum ,“ sagði Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri Grindavíkur, við þetta tækifæri.

Töluverð uppbygging er hjá hestamönnum í Grindavík því ásamt reiðhöll kemur nýtt hesthúsahverfi, reiðgerði og skeiðvöllur.

Steinþór Helgason, formaður Grindavíkurdeildar Mána, var að vonum ánægður og sagði að styrkveitingin kæmi sér vel fyrir áframhaldandi uppbyggingu á hestamannaíþróttinni í Grindavík.

Auk þessa styrks fær Grindavíkurdeild Mána 7 milljóna króna styrk frá Landbúnaðarráðuneytinu ásamt styrkjum frá ýmsum aðilum. Kemur þetta fram hjá Víkurfréttum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert