Ritstjórar sektaðir fyrir áfengisauglýsingar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sektað ritstjóra tveggja tímarita fyrir áfengisauglýsingar, sem birtar voru í tímaritum þeirra. Fyrrum ritstjóri tímaritsins Mannlífs var dæmdur í 500 þúsund króna sekt fyrir að birta árið 2006 þrjár auglýsingar um viskí og gin og ritstjóri Fótboltasumarsins 2006 fyrir að birta tvær bjórauglýsingar í blaðinu.

Sá sem bjórauglýsingarnar birti sagði að um væri að ræða auglýsingar á léttöli sem selt væri í verslunum á Íslandi. Fram kom hins vegar í rannsókn málsins að ekki væri vitað til þess að umræddar bjórtegundir hafi verið óáfengar til sölu og dreifingar á Íslandi á þessum tíma. Segir í niðurstöðu dómsins, að vitni hafi lýst því yfir að með auglýsingunum hafi verið ætlunin að styrkja umrædd vörumerki og því hafi verið um að ræða tilkynningu til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru áfengistegundir. Sé það brot gegn áfengislögum.

Fyrrverandi ritstjóri Mannlífs bar fyrir dómi, að ekki væri um að ræða auglýsingar heldur umfjallanir um áfengi, sem ekki teljist vera auglýsingar. Dómurinn slær því hins vegar föstu, að um hafi verið um að ræða tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru áfengistegundir. Það sé brot gegn áfengislögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert