13 sakfelldir í Tryggingastofnunarmáli

Frá húsnæði Tryggingastofnunar.
Frá húsnæði Tryggingastofnunar. mbl.is/Árni Torfason

13 af 15 sakborningum í svokölluðu Tryggingastofnunarmáli voru sakfelldir fyrir aðild að málinu. Var  45 ára gömul kona, fyrrum starfsmaður stofnunarinnar, dæmd í þriggja ára fangelsi og 25 ára gamall sonur hennar í tólf mánaða fangelsi, en þau voru höfuðpaurar í málinu. Refsingar voru í mörgum tilvikum óskilorðsbundnar en dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Rannveig Rafnsdóttir var dæmd í þriggja ára fangelsi  en frá refsingunni skal draga sautján daga gæsluvarðhald, frá 26. júní til 12. júlí 2006. Var hún sökuð um að hafa á 5 ára tímabili gefið út 781 tilhæfulausa kvittun fyrir útborgun og þannig blekkt gjaldkera Tryggingastofnunar til að greiða að tilefnislausu tæpar 76 milljónir króna úr sjóðum stofnunarinnar.

Var henni virt til hagsbóta að hún játaði hátt­semi sína strax í upphafi lögreglu­rann­sóknar, lagði sitt af mörkum til að upplýsa málið, meðal annars með því að greina frá aðild annarra, og hefur fyrir dómi gengist afdráttarlaust við þeim sökum, sem hún er borin í ákæru.

„Á hinn bóginn verður ekki horft framhjá því að um stórfellt brot í opinberu starfi var að ræða, en ákærða kom á fót umfangsmikilli fjár­svikastarfsemi, sem teygði anga sína víða og stóð samfellt yfir í nærri fjögur og hálft ár. Þegar upp var staðið hafði ákærða þannig svikið tæplega 76.000.000 króna út úr sjóðum TR og sjálf haft um eða yfir 30.000.000 króna upp úr krafsinu, eftir því sem næst verður komist. Brotavilji var því ein­beittur og tjónið einkar yfirgripsmikið, en það er óbætt," að því er segir í dómi héraðsdóms.

Sonur Rannveigar, sem fékk tólf mánaða fangelsisdóm, játaði sakargiftir fyrir dómi og er það virt honum til hagsbóta. Á móti kom, að hann var ekki aðeins sekur um hlut­deild í fjársvikum í opinberu starfi heldur taldi dómurinn að hann hefði að stórum hluta verið nánast aðalfremjandi brotsins, en fyrir hans tilstuðlan runnu samtals um 50 milljónir króna út úr sjóðum TR og hagnýtti hann sér þorra þess fjár, með einum eða öðrum hætti. Frá refsingu hans er dregið frá sextán daga gæsluvarðhald, frá 27. júní til 12. júlí 2006.

Kona á þrítugsaldri, fyrrum sambýliskona sonarins, var dæmd í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundið. Brot hennar fólst í því að hylma yfir tæplega 11 milljóna króna fjársvik en hún notaði eigin banka­reikninga til að þvætta umrætt fé og naut verulegs ávinnings af háttseminni, sem stóð óslitið í rúm fjögur ár. Til frá­dráttar óskilorðsbundinni refsivist skal koma átta daga gæsluvarð­hald, frá 27. júní til 4. júlí 2006. 

Karlmaður var dæmdur í 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundið. Ein kona var dæmd í 7 mánaða fangelsi, tvær konur og tveir karlar í 6 mánaða fangelsi hvert, einn karlmaður í 3 mánaða fangelsi  og einn karlmaður í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Tveir voru sýknaðir, einum karlmanni var ekki gerð refsing og refsingu einnar konu var frestað. Flest er fólkið á þrítugsaldri. Það vekur athygli að allir nema ein kona, sem hlutu dóma, eiga að baki sakarferil.

Áður höfðu fimm hlotið skilorðsbundna dóma fyrir aðild að málinu, þar á meðal barnsfaðir og fyrrum sambýlismaður konunnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka