Maður sem lögregla veitti eftirför á Akranesi í dag var handtekinn í húsi í bænum um klukkan 14:30 í dag. Maðurinn var samkvæmt upplýsingum lögreglu ekki vopnaður við handtöku og veitti ekki mótspyrnu.
Frekari upplýsingar um málið hafa ekki verið gefnar út en fyrr í dag greindi lögregla frá því að maðurinn hafi verið á leið út úr bænum en snúið við er hann mætti lögreglubíl. Honum hafi því verið fylgt eftir en ekki hafi náðst til hans fyrr en eftir töluverða leit. Óttast var að maðurinn væri vopnaður þar sem hann hefur áður orðið uppvís að slíku.
Sérsveitarmenn frá ríkislögreglustjóra tóku þátt í leit að manninum á Akranesi í dag en hann mun hafa komið við sögu lögreglu fyrr. Um tíma var talið, að maðurinn hefði leitað skjóls í iðnaðarhúsnæði í bænum en svo reyndist ekki vera.