Öflugur jarðskjálfti reið yfir á grísku eyjunni Krít í nótt, klukkan 3:20 að staðartíma, og mældist hann 5,5 á Richter. Skjálftinn átti upptök sín í Zakros á austurströnd eyjunnar, um 385 kílómetra frá Aþenu.
Um 400 Íslendingar eru staddir á Krít á vegum Úrval Útsýn á norðvesturhluta eyjunnar í Chania og Rethymnon. Guðrún Sigurgeirsdóttir, markaðsstjóri Úrval Útsýn, segir í samtali við mbl.is að strax hafi verið haft samband við umboðsaðila skrifstofunnar á Krít í morgun eftir að fréttir bárust af skjálftanum. „Þau fundu ekki fyrir honum , og voru sjálf að leita upplýsinga í morgun um skjálftann,"segir Guðrún.
Samkvæmt upplýsingum AFP fréttastofunnar hafi ekki borist fregnir af tjóni eða mannfalli eftir skjálftann. Á sunnudag reið annar skjálfti yfir Pelópsskaga á Grikklandi, sem mældist 6,5 á Richter, og létu tveir lífið.