Háir stýrivextir farnir að bíta

Hraðar hefur hægt á vexti hagkerfisins en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í síðustu þjóðhagsspá sinni sem birt var 10. apríl. Segir Greining Glitnis, að  háir stýrivextir virðist nú loksins vera farnir að bíta á heimilum og fyrirtækjum landsins sem verðai að teljast góð tíðindi fyrir Seðlabankann.

Í spá Seðlabankans var gert ráð fyrir 5,7% vexti fjárfestingar í íbúðarhúsnæði á árinu en fyrstu tölur ársins benda til mikils samdráttar. Þá spáði bankinn 2,2% hagvexti á árinu eftir 3,8% hagvöxt á síðasta ári.

Seðlabankinn mun birta nýja þjóðhags- og verðbólguspá 3. júlí nk. sem jafnframt er næsti vaxtatilkynningardagur bankans. Glitnir segir, að þar á bæ telji menn að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum og að Seðlabankinn hefji lækkunarferli stýrivaxta á haustmánuðum þegar enn skýrari merki séu komin fram um að farið sé að hægja á hagvexti hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert