Í fjárþröng og djúpt sokkin

Rannveig Rafnsdóttir, sem hlaut þyngstan dóm, þriggja ára fangelsi, í svonefndu Tryggingastofnunarmáli hafði verið starfsmaður stofnunarinnar í um 20 ár. Hún sagðist fyrir dómi hafa verið í fjárþröng, djúpt sokkin í fíkniefnaneyslu og því leiðst út í fjársvik. Fyrst hefðu þau verið í smáum stíl, en síðan hefði umfang þeirra aukist.

Rannveig var sökuð um að hafa á 5 ára tímabili gefið út 781 tilhæfulausa kvittun fyrir útborgun og þannig blekkt gjaldkera Tryggingastofnunar til að greiða að tilefnislausu tæpar 76 milljónir króna úr sjóðum stofnunarinnar. Í dómnum segir að um stórfellt brot í opinberu starfi hafi verið að ræða.

Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, segist fagna því að málinu sé lokið, rannsókn þess hafi tekið langan tíma og málið verið afar umfangsmikið.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur voru 13 af 15 sakborningum sakfelldir í dag fyrir aðild að málinu, refsing var þó í mörgum tilvikum óskilorðsbundin. Rannveig og sonur hennar voru talin höfuðpaurar í málinu, en hann var dæmdur í tólf mánaða fangelsi.

Sigríður Lillý segir að erfitt muni reynast að útiloka að starfsmenn geti svikið út fé, en til að koma í veg fyrir það sé reynt að gera eftirlitskerfi stofnunarinnar eins öflugt og hægt er.

Skoða dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert