Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Ölgerðin Egill Skallagrímsson hafi brotið gegn lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum með auglýsingum þar sem fullyrt er að Merrild sé besta kaffihúsið í bænum. Er Ölgerðinni bannað að nota fullyrðinguna í auglýsingum sínum og tekur bannið gildi eftir fjórar vikur.
Í niðurstöðu Neytendastofu segir, að um sé að ræða fjórar auglýsingar. Í þeim öllum komi Kristinn R. Ólafsson fram og lýsi gæðum vörunnar. Í lok auglýsinganna heyrist kvenmannsrödd segja: „Merrild, besta kaffihúsið í bænum“.
Neytendastofa segir engum vafa undirorpið, að Kristinn R. Ólafsson komi fram í eigin nafni í auglýsingunni. Af þeim sökum verði að álykta að hann setji þar fram skoðun sína á því hvaða kaffi honum líkar best. Kvenmannsröddin, sem fullyrði að Merrild sé besta kaffihúsið í bænum, sé hins vegar ekki að túlka skoðanir Kristins og uppllýst sé í málinu að Merrild kaffihús eru ekki til. Sé því ljóst að fullyrðingin taki ekki til kaffihúsa.
„Að mati Neytendastofu er augljós sá tilgangur fullyrðingarinnar að gefa þá mynd að Merrild sé besta kaffið. Slík fullyrðing hlýtur að vera byggð á mati en ekki staðreyndum," segir Neytendastofa og bætir við það þar með brjóti fullyrðingin gegn áðurnefndum lögum.