Kópavogur bregst við óánægju íbúa við Lundarbraut

Fjölbýlishúsið við Lundarbraut 1 og samgöngumannvirkin.
Fjölbýlishúsið við Lundarbraut 1 og samgöngumannvirkin. mbl.is/RAX

Bæjarráð Kópavogs hefur gripið til ráðstafana til að koma til móts við sjónarmið íbúa í fjölbýlishúsinu við Lundarbraut 1 vegna nálægðar hússins við Nýbýlaveg og hringtorg, sem er á mótum Lundarbrautar og Nýbýlavegar.

Kópavogsbær segir ljóst, að hönnuðir fjölbýlishússins  hafi staðsett ákveðnar íbúðir í mikilli nálægð við samgöngumannvirkin og kunni það að valda íbúum þar óþægindum, jafnvel þótt kröfum um hljóðstig og aðra þætti hafi verið fullnægt. Ítarleg athugun hafi farið fram á tillögum að færslu vegarins og hringtorgsins fjær fjölbýlishúsinu  en tillögurnar þóttu allar rýra gæði umferðarmannvirkja, skila litlum ávinningi og kosta umtalsvert fé.
 
Af hálfu Kópavogsbæjar var hönnuðum bent á það við hönnun hússins að taka tillit til nálægðarinnar við veginn. Kópavogsbær segist því geta tekið undir ýmis sjónarmið íbúa sem hafa komið fram. Í ljósi þess leggur bæjarráð Kópavogsbæjar til við framkvæmdaraðila á svæðinu, annars vegar Vegagerðina og hins vegar Byggingarfélag Gylfa og Gunnars (BYGG), sem byggði  fjölbýlishúsið, að grípa til eftirfarandi ráðstafana til að koma til móts við sjónarmið íbúa:
 

  1. BYGG, sem annast framkvæmdir innan Lundarsvæðisins, sjái um að akbrautin, sem liggur upp úr Lundarhverfinu og tengist Nýbýlavegi á hringtorgi, verði færð fjær Lundarbraut 1.
  2. Vegagerðin athugi hvort unnt sé, þrátt fyrir fyrrnefnt óhagræði og kostnað, að minnka hringtorgið svo að norðurbrún Nýbýlavegar færist fjær Lundarbraut 1.
  3. Framkvæmdaraðilar breyti gönguleiðinni næst húsinu í sama tilgangi og rakinn hefur verið.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka