„Það hefur verið brotist inn í kerfið hjá mér, ég kemst ekki inn í tölvupóstinn og búið er að breyta lykilorðinu," segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur um það sem virðist vera ný tegund af Nígeríusvindli en svo virðist sem brotist hafi verið inn í pósthólf Einars hjá póstsþjónustunni Gmail.
mbl.is barst póstur frá Einari, um að hann væri fastur í Nígeríu, hafi týnt öllum ferðaskjölum og þurfi á peningaaðstoð, 2000 dölum, að halda fyrir uppihaldi og til þess að komast heim. Einar segir póstinn hafa farið víða en klukkan hálftvö í dag var þessi sami póstur sendur um 400 tenglum sem eru á heimilisfangalistanum hans á Gmail. Eftir það komst hann ekki inn í póstinn.
„Ég er búin að senda Gmail upplýsingar um þetta og verð að senda beiðni um nýtt lykilorð sem gæti tekið einhverja daga," segir Einar og bætir við að hugsanlega séu allar upplýsingar sem voru inni á tölvupóstsnetfangi hans glataðar. Aðspurður segist Einar ekki hafa heyrt um að fleiri hafi lent í þessu sama.