Ríkissjóður ver árlega um einum milljarði króna til niðurgreiðslna á húshitun og annarra verkefna sem leiða eiga til lækkunar á húshitunarkostnaði þeirra sem ekki hafa aðgang að hitaveitu. Tæp 11% af íbúfjölda landsins njóta niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði, sem skiptist þannig að 8% eru með beina rafhitun, 2,9% vegna upphitunar frá hitaveitu sem er kynt með raforku (ótryggri orku), olíu og öðrum orkugjöfum sem til falla á viðkomandi svæði s.s. eins og sorpbrennslum og frá frystihúsum. Niðurgreiðslur á rafhitun miðast við að hámarki 40.000 kWst/ári.
Stórhækkun á verði gasolíu á undanförnum mánuðum hefur beint athyglinni að eigendum húsa, sem kynt eru með olíu. Olían hefur hækkað jafnt og þétt og lætur nærri að olía til húshitunar hafi hækkað um 100% á einu ári. Ríkið niðurgreiðir olíu til húshitunar hjá eigendum húsa sem ekki hafa tengingu við raforkunet landsins og hafa því hvorki möguleika á hitaveitu né rafhitun.
Hámark er á niðurgreiðslunum í samræmi við rafhitunina og er þá er fjöldi kWst umreiknaður til fjölda olíulítra eða 5.375 L/ári miðað við 75% nýtingu en engu að síður greiða þeir langmest allra fyrir kyndingu húsa sinni. Nú er svo komið að aðeins tvö byggðarlög á landinu, Grímsey og Flatey á Breiðafirði, og örfáir afskekktir sveitabæir njóta þessara niðurgreiðslna. Alls er um að ræða 32 hús.
Benedikt Guðmundsson, verkefnisstjóri hjá Orkustofnun, hefur umsjón með greiðslu olíustyrksins. Hann segir að hækkanirnar að undanförnu séu geigvænlegar. Niðurgreiðsla á meðalhús í fyrra, sem er um 190 fermetrar, hafi verið 143 þúsund krónur.
Miðað við nýjasta verðið á markaðnum, sem er um 114 krónur lítrinn, verði niðurgreiðslan á meðalhús á þessu ári um 290 þúsund krónur ef fram heldur sem horfir. Þetta er rétt um 100% hækkun. Benedikt segir að sérfræðingar séu jafnvel að spá enn meiri hækkunum á næstunni og því kunni þessar tölur að hækka. Ríkið hefur verið að greiða um 5 milljónir árlega í olíustyrki en Benedikt reiknar með að greiðslurnar eigi eftir að stórhækka á þessu ári.