Landsvirkjun hefur ákveðið að hækka samningsbundið verð heildsölu- og grunnorkusamninga um 6% um næstu mánaðamót. Kveðið er á um endurskoðun þessara samninga í júní ár hvert, til samræmis við vísitölu neysluverðs. Hefði slík hækkun átt að vera tæp 12% að þessu sinni en Landsvirkjunarmenn segja að vegna aðstæðna í efnahagslífinu hafi verið ákveðið að fresta fullri hækkun á heildsöluverðinu.
„Við vildum ekki hleypa þessu sjálfkrafa í gegn,“ segir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, en fyrirtækið bendir á að miklar verðhækkanir hafi verið að undanförnu. Verðbólga hafi ekki mælst jafnhá í 18 ár og gengi íslensku krónunnar veikst verulega. Því sé eðlilegt að fresta hluta af samningsbundnum verðhækkunum á raforku. Hins vegar hækkar verð á ótryggri orku til samræmis við breytingu á neysluvísitölunni.
Af þeim raforkusölum sem Morgunblaðið náði tali af virðist sem eingöngu Hitaveita Suðurnesja hafi ákveðið að hækka sitt söluverð. Að sögn Júlíusar Jónssonar forstjóra stefnir í að rafmagnsreikningurinn verði hækkaður um 6%. Hjá Orkusölunni fengust þau svör að líklegast yrði verðið hækkað þó að ákvörðun lægi ekki fyrir. Forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur, Orkuveitu Húsavíkur og Fallorku, dótturfélags Norðurorku, sögðu gjaldskrármálin vera til skoðunar.