Stofna húsaleigufélög vegna skulda

Framkvæmdastjóri Búseta óttast um þróunina á leigumarkaði. Leigufélög spretti upp á hverju strái en stofnun þeirra eigi sér eingöngu rætur í fjárhagsvandræðum húsbyggjenda. Þau séu ekki stofnuð með langtímahagsmuni leigjenda í huga.

Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta, efast um að markmið þessara nýju félaga sé að þjóna leigumarkaðinum til framtíðar.

Búseti hefur nú sent stjórn Íbúðalánasjóðs bréf þar sem þess er farið á leit við sjóðinn að hann nýti ekki takmarkað fjármagn sem hann hefur til umráða til annarra en trúverðugra leigufélaga sem þegar eru starfandi, en auk Búseta hafa örfá önnur leigufélög byggt upp leigumarkaðinn síðustu áratugina.

Vilja ná í ódýrt fjármagn

Gísli Bjarnhéðinsson segist ekkert hafa á móti sanngjarnri samkeppni. En þau leigufélög sem nú spretta upp séu leið til að gera fasteignir veðhæfar fyrir lán fyrir leiguíbúðir og félögin muni ekki ætla sér að þjóna leigumarkaðnum til frambúðar. Markmiðið sé aðeins að ná sér í ódýrt fjármagn til að bíða af sér ástandið og greiða upp skuldir í bönkunum. Hann fer fram á að Íbúðalánasjóður noti ekki fjármuni sína til að skera fasteignabraskara, verktaka eða fjármálastofnanir úr snörunni. Þessir aðilar hafi tekið mikla áhættu í starfsemi sinni og séu nú fyrst og fremst að reyna að bjarga sjálfum sér fyrir horn.

Óbreytt útlán íbúðalánasjóðs

Í 24 stundum í gær kom fram að Íbúðalánasjóður er að láta gera úttekt á íbúðamarkaðnum um allt land. Til athugunar er að lána ekki til nýbygginga þar sem offramboð er af húsnæði sem stendur ónotað. Sjóðurinn hefur ekki neitað verktökum um lán og engin breyting hefur orðið á starfseminni enn sem komið er. Einstaklingar hafa sama rétt og aðgengi og jafnan áður að lánveitingum sjóðsins.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert