Svarthöfði vakti lukku

Svarthöfði vakti kátínu nærstaddra ferðamanna og sat fyrir á myndum …
Svarthöfði vakti kátínu nærstaddra ferðamanna og sat fyrir á myndum með þeim

Mörgum brá eflaust í brún þegar mynd af prestastefnunni birtist í gær í Morgunblaðinu og á mbl.is og á eftir prestahersingunni sást enginn annar en Svarthöfði sjálfur úr Stjörnustríðsmyndunum. Prestarnir voru á leið á setningu stefnunnar í Dómkirkjunni og átti vafalaust enginn von á því að Svarthöfði slægist í hópinn og fylgdi honum að kirkjudyrum.

Það voru félagsmenn í Vantrú sem stóðu að tiltækinu. Að sögn Matthíasar Ásgeirssonar, formanns Vantrúar, var þetta fyrst og fremst í gríni gert. „Ég hef horft á gönguna í mörg ár og það er bara spaugilegt að bæta Svarthöfða í hópinn.“

Morgunblaðið reyndi að ná tali af Svarthöfða í gær en í ljós kom að hann er heldur hlédrægur og vildi einfaldlega láta verkið tala sínu máli.

Matthías segir hugmyndina hafa gerjast meðal nokkurra félagsmanna í mörg ár. Ólíklegt er að þetta verði gert árlega en Matthías útilokar ekki að Svarthöfði mæti á Kirkjuþingið sem haldið verður í haust. „Svarthöfði á örugglega eftir að sjást einhvern tímann aftur,“ segir Matthías. Að hans sögn vakti Svarthöfði mikla kátínu meðal vegfarenda og er Matthías ekki frá því að prestunum hafi verið nokkuð skemmt en margir erlendir ferðamenn, sem áttu leið um svæðið, fengu Svarthöfða til að sitja fyrir á myndum og það gerði hann með glöðu geði. ylfa@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert